Enginn séns á að hækka launin vegna stórra kaupa karla megin

# Nafnlaus frásögn

Körfubolti – sumarið 2017

Settist niður með helstu liðum landsins

Ég ákvað eitt árið að ganga á milli liða og láta bjóða í mig sem leikmann fyrir komandi tímabil. Eitthvað sem ég hafði aldrei áður gert, þrátt fyrir að hafa verið úrvalsdeildarleikmaður og landsliðskona í þó nokkuð mörg ár.. Það var eitthvað svo “druslulegt” við það. Leikmenn sem eru að tala við mörg lið á sama tíma fá ekki gott umtal finnst mér. Ég átta mig samt ekki á því hvort það sé munur á milli kvenna og karla leikmanna þegar það kemur að þessu.

Mikil orka í smá hækkun á samningi

Ég var að mér fannst hörð, settist niður með helstu liðum landsins og mér bauðst aðeins betri samningur en ég hafði áður fengið. Við erum að tala um nokkra þúsund kr (max 10 þúsund kr í plús). Þetta voru margir fundir og mikill tími sem fór í þetta hjá mér. Klúbburinn sem ég var hjá tímabilið áður sagði að enginn séns væri á að hækka launin mín þar sem að karlalið félagsins hafði gert svo stórann samning við karlkyns leikmann árinu áður að klúbburinn stæði illa vegna þess. Að lokum fékk ég þetta tiltekna félag til þess að jafna önnur tilboð sem mér höfðu verið boðin (um þessar 10 þúsund krónur).

Launin mín voru 16% af launum kærasta míns

Á svipuðum tíma og ég stóð í þessu harki um betri kjör, fór kjaftasaga af stað um kærastann minn (sem spilar sömu íþrótt). Að hann hafði í huga um að skipta um félag. Klúbburinn hans hringdi þá í hann af fyrrabragði og bauð honum 100 þús kr hækkun á samningnum hans. Launin mín voru 16% af launum kærastans míns. Mér fannst það grátlegt að hafa eytt miklum tíma og erfiði í að fá þessa nokkra þúsundkarla.